Sabine Bernholt

Í holu heima

Sabine og maðurinn hennar Úlfur Óskarssson bökuðu hverarúgbrauð í rúmt ár. Þau bjuggu í húsinu Fífilbrekka í Hveragerði sem stendur í hæð. Eftir jarðskjálftann stóra þann 29. maí 2008 opnaðist hverahola á landi rétt utan við húsið þeirra og þá var aðgengi að jarðhita mjög gott. Forvitni og sköpunargleðin ýtti Sabine út í baksturinn á þessu sérstaka brauði. Hún og maðurinn hennar lögðu á sig tímafreka vinnu til að ná árangri í hverbakstrinum.

Sabine vinnur á Heilsustofnun NLFÍ Náttúrulækningafélag Íslands og vinnufélagar hennar hvöttu hana til að byrja að baka hverarúgbrauð fyrst hveraholan birtist þarna í bakgarðinum hennar.  Hún byrjaði á því að leita á netinu eftir uppskrift af rúgbrauði og þau hjónin hrærðu deigið heima í eldhúsi. Sabine bakaði brauðið fyrst í mjólkurfernum og tunnu utan um en deigið vildi vella út um fernurnar sem opnuðust upp í hitanum. Sabine fékk þá lánaða tvo járndunka frá vinnustaðnum sínum HNLFÍ. Þessir dunkar eða tunnur  voru notaðir fyrir um 15 árum síðan við hverabakstur, þegar slíkt var hluti af daglegum rekstri HNLFÍ. Sabine setti nú deigið beint í dunkana og svo plastpoka yfir dunkinn þar sem þeir urðu mjög drullugir í leirhvernum. Úlfur útbjó grindur  úr grænu girðingarefni, dunkarnir settir í og síðan lagðir í hveraholuna. Þau lögðu svo spýtur yfir sem lok. Brauðið var tilbúið eftir 12 -20 tíma bakstur. Hveraholan sem þau notuðu var alveg passleg fyrir einn brauðdunk en Úlfur breikkaði hann í upphafi og gróf aðeins niður í jörðina. Á einu ári víkkaði holan mikið og hverinn kólnaði. Það fór þá að gerast baksturinn mistókst vegna þess að hitinn var ekki stöðugur. Sabine hætti að baka haustið 2009. Þá komu í ljós jarðskjálftaskemmdir á húsinu og fjölskyldan neyddist til að flytja.

Rúgbrauðið, sem var bakað daglega, var ekki aðeins ætlað Sabine og hennar fjölskyldu því magnið var svo mikið að þau seldu ferðamönnum brauðið. Margir lögðu leið sína upp í hlíðina við Fífilbrekku til að skoða hverina og Sabine setti lítið borð út og bauð brauðið til sölu. Oft setti hún bara brauðið út í litla plastpoka og peningabauk á borðinu. Ferðamenn tóku mjög vel í þetta og brauðið sló í gegn. Sabine sagði að íslenskir ferðamenn höfðu mest spáð í brauðið sjálft t.d.  bragðið,  meðan erlendir ferðamenn voru meira upprifnir yfir baksturslaginu; að brauðið skuli virkilega vera bakað í hver. Sabine segir að sömu viðbrögð hafi hún fengið frá fjölskyldu sinni í Þýskalandi. Þeim fannst þetta skrítið, fyndið og magnað.

Sabine segir að bakstur hafi alltaf verið til gamans gerður, jarðhitinn var þarna og af hverju ekki að nota hann. Þau voru aldrei að hugsa sér að græða á þessu, til þess var fyrirhöfnin of mikil. Bæði hún og maðurinn hennar eru mjög umhverfissinnuð og hafa mikinn áhuga á náttúru Íslands og Sabine fannst heillandi hugmynd að nota náttúruauðlindina, hitan úr jörðinni við bakstur.

Hér fylgir uppskrift Sabine að hverarúgbrauði. Uppskriftinn dugir í 12 stykki af  300-400 gr. brauðum. Deigið á að vera þykkt eins og hafragrautur og svona er uppskriftin eftir að Sabine aðlagaði hana að bökunarílátunum.

1.125 gr. rúgmjöl

700 gr. heilhveiti

1 dós síróp

7 tesk. matarsódi (leyst upp í vatni)

2 l. súrmjólk

Færðu inn athugasemd