Heimabakað brauð

Á Minjasafni Reykjavíkur – Árbæjarsafni er leitast við að gefa gestum hugmynd um lifnaðarhætti í Reykjavík í gegnum tíðina. Þáttur safnsins í Brauð í norðri er að rannsaka brauðgerð í heimahúsum í Reykjavík.

Sunnudaginn 20. júní 2010 var haldinn brauðdagur á Árbæjarsafni. Þá fyllti ilmurinn af nýbökuðu brauði vit gesta safnsins og þeim var boðið að smakka nýbakaðar lummur og flatkökur sem starfsmenn safnsins steiktu af miklum móð. Einnig var boðið upp á seytt rúgbrauð með smjöri og hveitibrauð með smjöri.

Helga Sigurðardóttir fjallar um brauð og brauðgerð í bók sinni Matur og drykkur sem kom út árið 1949 (2. útgáfa). Þar segir hún: „Margir hyggja, að fyrirhafnarminna og ódýrarar sé að kaupa allt brauð í brauðbúðunum. Vera má, að áhyggjum og ýmsum örðugleikum sé létt af húsmæðrum á þann hátt. En ef því verður við komið, er hentugra, kostnaðarminna og skemmtilegra að baka heima, auk þess er heimagert brauð miklu betra, ef bakstur og tilbúningur lánast vel.“ (bls. 346)

En hvernig er þessu háttað í dag árið 2011. Er hentugra, kostnaðarminna og skemmtilegra að baka heima? Ganga uppskriftir í erfðir eða ríkir nýjungagirni í brauðbakstri?

Ef þú, lesandi góður, lumar á góðri brauðuppskrift vildum við gjarnan að þú deildir henni með okkur hér eða sendir okkur hana í tölvupósti á netfangið minjasafn@reykjavik.is.  Gaman væri líka að vita hvort að þetta sé ný eða gömul uppskrift, hve oft þú bakar brauð heima og hvers vegna.