Hverarúgbrauð hefur verið bakaða í Hveragerði lengur en elstu menn muna og enn í dag er þetta sérstaka brauð á matarborði íbúanna. Þar hefur brauðgerð skapað sér landfræðilega sérstöðu vegna nýtingar á orku frá háhitasvæði sem liggur í hjarta þorpsins. Heimildir eru um eldun í hver á þessu svæði frá því um 1700 en þó má telja að sú saga teygi sig mun lengra aftur í tímann því forfeður okkar notuðu jarðhiti við eldun á mat alveg frá upphafi byggðar.
Rúgmjöl var mest var notað við brauðgerð á öldum áður og rúgbrauðið var þá hverdags matur. Í dag er hverarúgbrauð sérvara og þeir sem það baka jafnvel taldir sérvitrir. Byggðasafn Árnesinga lagði upp með að skoða nánar verklag þeirra sem enn baka hverrúgbrauð og fá innsýn í hugarheim þeirra. Þrír ólíkir bakarar í Hveragerði voru heimsóttir, Sigfús Sigurjónsson hjá Hverabakaríi, Ólafur Ingi Reynisson hjá Kjöt og kúnst og heimabakarinn Sabine Bernholt.
Þessir bakarar nota ólíkar leiðir við baksturinn og hafa sérsniðið verklagið að sínum þörfum. Þau eiga það sameiginlegt að heillast af því að geta beislað frumorku jarðar og nýtt hana sér til góða. Einnig er það þeim mikilvægt að baksturinn byggir á langri hefð. Með því að nota hveragufuna eru þau á ákveðinn hátt að feta í fótspor forfeðranna og halda í heiðri hefðinni. Þó rúgbrauðið sé markaðsvara hjá bæði Sigfúsi og Ólafi er augljóst að baksturinn sér persónulegar rætur. Niðurstaða rannsóknarinnar var staðfesting á því að brauðgerðarmaður er tilbúinn að leggja á sig aukna vinnu til að fullnægja sköpunargleði og forvitni ásamt því að styrkja þjóðerniskennd sína.