Laufabrauð

 

Laufabrauð – frá nauðþurftum til markaðsvöru

Bakstur fyrir jólin er algengur siður meðal þjóða einnig á Íslandi. Þar markaðist hann af þjóðfélagsaðstæðum einkum skorti á hveiti. Það var því drýgt svo úr urðu afar þunnar kökur – laufabrauð. Þótt aðstæður séu nú allt aðrar hefur siðurinn haldist áfram en hefur hann sömu merkingu og áður? Er laufabrauðsgerð orðin fastur liður í jólaundirbúningnum?

Markmið rannsóknar:

Að skrásetja verklag við laufabrauðsgerð sambanborið við laufabrauðsgerð fortíðarinnar. Skoðað verður hvernig árstíðabundinn heimilisbakstur þróast út í markaðsvöru.

„Laufabrauð, laufótt brauð, sem hnoðað er úr hreinu hveiti, en þunnt og útskorið með margvíslega löguðum myndum, smurt með smjöri og soðið yfir eldi; það er þeim sætabrauð.“

Jón Ólafsson frá Grunnavík um 1736

„Laufabrauð eða kökur af hveitideigi, vættu í sykur-blandinni góðri mjólk eður rjóma, útskornar ýmislega, og soðnar í bræddu smjöri, eru svo algengin, að frá þeim þarf ekki meira að segja.“

Einfalt Matreiðslu vasakver fyrir heldri manna húsfreyjur útg. 1800.

Magnús Stephensen, dómstjóri

Á aðventunni safnast vinir og fjölskyldur saman til að undirbúa jólin. Einn þáttur í því er að búa til laufabrauð. Sífellt fleiri landsmenn hafa tekið upp þennan sið sem áður var einkum bundinn við Norðurland. Þjóðarpúls Capacent í desember 2010 kannaði jólavenjur Íslendinga. Í þessari könnun kom fram að 30% Íslendinga sker út eða steikir laufabrauð. Leiða má líkur að því að mun fleiri hafi neytt laufabrauðs en bjuggu þau til. Til samanburðar má geta þess að 40% landsmanna voru með lifandi jólatré og 33% fóru í kirkju.

Það er vel þekkt á Norðurlöndum að gera hátíðarbrauð, ekki síst fyrir jólin. Íslenska brauðið er þó ólíkt að því leiti að það líkist meira skreyttu kexi en brauðhleifi. Laufabrauð er séríslenskt góðgæti sem var einna helst bundið við Norðurland. Laufabrauð er þunn kaka úr hveiti, rúg eða spelti sem steikt er upp úr fitu. Hér áður fyrr var talað um að kökurnar ættu að vera nævurþunnar – svo þunnar að hægt væri að lesa í gegnum þær.

Brauðmenning á Íslandi var öðru fremur mótuð af skorti á hveiti og ekki fyrr en á 20. öld sem brauð varð dagleg neysluvara einkum í þéttbýli en í stað þess kom neysla á harðfiski sem var bæði ódýrari og auðfengnari en hveiti. Brauðið var því haft þunnt svo hægt væri að gera fleiri kökur fyrir heimilisfólk en einnig geymast kökurnar betur en brauðhleifar.

Til að gera hinar þunnu kökur fallegar og sem hluta af hátíðarundirbúningi voru þær skornar út í allskyns munstrum einkum laufum og rósum. Þau munstur sem skorin eru út í laufabrauð eru afar fjölbreytt og persónuleg og líklega jafn erfitt að telja þau eins og hólana í Vatnsdalnum eða gígana á tunglinu.

Í hönnunarumhverfi nútímast hefur þjóðlegur siður orðið að listrænni markaðsvöru, það sem áður var til marks um skort á nauðsynjum er nú orðið að markaðsvöru. Allt hvílir þetta á þeirri meginstoð sem er hin félagslega athöfn, að fjölskyldur og vinir komi saman og geri sínar kökur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s