Brauð er hluti af daglegri fæðu landsmanna. Með því að safna frásögnum og heimildum um brauðneyslu á Íslandi vilja söfnin, sem tóku þátt í þessu verkefni, sýna fram á margbreytileika samfélagsins sem við búum í og þá menningarlegu fjölbreytni sem hér ríkir.
- Hvernig veljum við okkur brauð?
- Bökum við sjálf eða kaupum við verksmiðjuframleidd brauð?
- Erum við nýjungargjörn þegar kemur að heimabakstri eða notumst við ennþá við gamlar fjölskylduuppkriftir?
- Hvaða minningar vekja laufabrauð, hverarúgbrauð og vestfirskar hveitikökur í okkar huga?
- Þeir sem flytjast nú til landsins, halda þeir tengslum við gamla landið með því að baka brauð sem þau ólust upp við?
Þessum og fleiri spurningum var varpað hér fram og vonuðust söfnin til að geta safnað í þennan brunn, Brauðbrunn, heimildum um brauðmenningu landsmanna árið 2011. Söfnin hvöttu gesti síðunnar að lesa sér til um brauðmeti innflytjenda, heimabakað brauð, hverarúgbrauð, laufabrauð, vestfirskar hveitikökur og jafnvel taka þátt í könnun sem er að finna undir liðnum Segðu okkur frá í fellilista hvers viðfangsefnis.
Byggðasafn Árnesinga – Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti – Minjasafnið á Akureyri – Minjasafn Reykjavíkur-Árbæjarsafn – Þjóðháttasafn Þjóðminjasafns Íslands