13. desember – Laufabrauð

„Laufabrauð, laufótt brauð, sem hnoðað er úr hreinu hveiti, en þunnt og útskorið með margvíslega löguðum myndum, smurt með smjöri og soðið yfir eldi; það er þeim sætabrauð.“

Jón Ólafsson frá Grunnavík um 1736

 „Laufabrauð eða kökur af hveitideigi, vættu í sykur-blandinni góðri mjólk eður rjóma, útskornar ýmislega, og soðnar í bræddu smjöri, eru svo algengin, að frá þeim þarf ekki meira að segja.“

Einfalt Matreiðslu vasakver fyrir heldri manna húsfreyjur útg. 1800.
Magnús Stephensen, dómstjóri
Jólaboð í Haganesi 1906. Ljósm. Bárður Sigurðsson.

Jólaboð í Haganesi 1906. Ljósm. Bárður Sigurðsson. ©Þjóðminjasafn Íslands

Á aðventunni safnast vinir og fjölskyldur saman til að undirbúa jólin. Einn þáttur í því er að búa til laufabrauð. Sífellt fleiri landsmenn hafa tekið upp þennan sið sem áður var einkum bundinn við Norðurland. Þjóðarpúls Capacent í desember 2010 kannaði jólavenjur Íslendinga. Í þessari könnun kom fram að 30% Íslendinga sker út eða steikir laufabrauð. Leiða má líkur að því að mun fleiri hafi neytt laufabrauðs en bjuggu þau til. Til samanburðar má geta þess að 40% landsmanna voru með lifandi jólatré og 33% fóru í kirkju.

Það er vel þekkt á Norðurlöndum að gera hátíðarbrauð, ekki síst fyrir jólin. Íslenska brauðið er þó ólíkt að því leiti að það líkist meira skreyttu kexi en brauðhleifi. Laufabrauð er séríslenskt góðgæti sem var einna helst bundið við Norðurland. Laufabrauð er þunn kaka úr hveiti, rúg eða spelti sem steikt er upp úr fitu. Hér áður fyrr var talað um að kökurnar ættu að vera nævurþunnar – svo þunnar að hægt væri að lesa í gegnum þær.

Brauðmenning á Íslandi var öðru fremur mótuð af skorti á hveiti og ekki fyrr en á 20. öld sem brauð varð dagleg neysluvara einkum í þéttbýli en í stað þess kom neysla á harðfiski sem var bæði ódýrari og auðfengnari en hveiti. Brauðið var því haft þunnt svo hægt væri að gera fleiri kökur fyrir heimilisfólk en einnig geymast kökurnar betur en brauðhleifar. Til að gera hinar þunnu kökur fallegar og sem hluta af hátíðarundirbúningi voru þær skornar út í allskyns munstrum einkum laufum og rósum. Þau munstur sem skorin eru út í laufabrauð eru afar fjölbreytt og persónuleg og líklega jafn erfitt að telja þau eins og hólana í Vatnsdalnum eða gígana á tunglinu.

Hér fylgir uppskrift af laufabrauði úr bók Helgu Sigurðardóttur, Matur og drykkur:

Laufabrauð (35 stk.)

Efni:

1 kg hveiti

1 ½ tesk lyftiduft

1 tesk salt

5-6 dl mjólk

Fita til að sjóða í

Aðferð:

Mjólkin er soðin. Hveitið er sett á borð. Þar í blandað salti og lyftidufti, og nú er mjólkinni, sem er sjóðandi heit, hrært í. Hrært, þar til það er alveg jafnt, en á að vera vel þykkt. Þá er deigið hnoðað saman, og nú er það hnoðað, þar til það er gljáandi, hart og sprungulaust, en það má ekki  festast við borðið. Það á að vera seigt og hart. Hnoðið í lengjur, sem skornar eru í jafn stóra bita. Bitarnir hnoðaðir milli handanna í jafnar kökur, sem eru breiddar svo þunnt út sem mögulegt er. Þá er kakan tekin undan diski og skorin með alls konar laufaskurði. Hægt er að skera stafi o.m.fl. Kökurnar eru soðnar í feiti við mikin hita og eiga að vera ljósbrúnar. Laufabrauð er helzt búið til fyrir jólin, og er það gamall og góður siður.   

Heimild: Helga Sigurðardótti: Matur og drykkur, Reykjavík 1949.
Þessi færsla var birt í Brauð á Íslandi, Jóladagatal, Laufabrauð, Laufabrauðsuppskriftir og merkt sem . Bókamerkja beinan tengil.