11. desember – Íslensk jólakaka

Uppskrift dagsins er hin klassíska jólakaka. Í bók Árna Björnssonar Í jólaskapi  (bls. 58-59) segir um jólakökuna:

„Ekki er kunnugt um nema eina sætabrauðstegund, sem beinlínis er kennd við jólin, þ.e. jólakaka, en er reyndar löngu hætt að vera bundin við þau. Orðið jólakaka hlýtur að vera ævafornt, því það hefur komist sem tökuorð inn í bæði finnsku og eistnesku, meðan Norðurlönd voru ennþá heiðin, og heitir þar joulu-kaku og joulu-kak. Orðið Yule-cake er líka til í gamalli ensku. Sú jólakaka hefur sjálfsagt verið ærið frábrugðin þeirri, sem við þekkjum, en orðið virðist sýna, að bakað hafi verið til jólanna í heiðnum sið.“

Jólakaka

efni

150 gr smjör

150 gr sykur

3 egg

250 gr hveiti

2 1/2 tsk lyftiduft

2 tsk kardimommur

1 dl mjólk

120 gr rúsínur

aðferð

Hrærið vel saman smjör og sykur. Bætið eggjunum í, einu í senn, og hrærið vel á milli. Blandið saman hveiti, lyftidufti og steyttum kardimommum og bætið helmingnum af því í deigið, þá mjólkinni og loks því sem eftir er af þurrefnunum ásamt rúsínum. Smyrjið aflangt mót og bakið kökuna í um 45 mínútur við 170 gráðu hita neðst í ofninum.

Jólakort úr safneign Árbæjarsafns

Jólakort úr safneign Árbæjarsafns

 

 

Auglýsingar
Þessi færsla var birt í Brauð á Íslandi, Jóladagatal og merkt sem , . Bókamerkja beinan tengil.