Hveitikökur – ómissandi með kjötinu

Þann 24. maí 2008 var haldið málþing á Patreksfirði sem bar heitið Matur og menning á suðursvæði Vestfjarða. Þar hélt Anna Jensdóttir erindi sem bar yfirskriftina Hveitikökur – ómissandi með kjötinu.

Eftirfarandi klausa er úr erindi Önnu:

„Hveitikökurnar okkar hafa verið bakaðar svo lengi sem elstu menn muna, skv. þeim upplýsingum sem ég hef aflað hjá eldra fólki hér á svæðinu. Ekki eru menn á eitt sáttir um upphaf þessa baksturs. Enginn heimildarmanna hafði séð hveitikökur bakaðar á hlóðum. Það er þó ósköp eðlilegt, þar sem eldavélar voru komnar til sögunnar á þeim tímum er þeir voru að alast upp. En það var þó fyrrum gert og þá notaðar þær stein- og járnhellur sem nefndar voru hér á undan. Í máli nokkurra heimildarmanna kom það fram að þeir álitu að hveitikakan hefði verið bökuð á hellu til þess að flýta fyrir og jafnvel spara eldivið, því mun skemmri tíma tekur að baka á þann hátt en að baka brauð í ofni. Heimildamönnum mínum ber saman um það að í upphafi hafi kökurnar verið bakaðar beint á hringjum á eldavélinni, þó að á síðari tímum sé notuð pönnukökupanna. Í guðanna bænum, hafið samt sérstaka pönnu fyrir hveitikökurnar, því pönnukökurnar eiga það til að mótmæla þegar reynt er að baka þær næst, hafi þeirra panna verið notuð í annað!“

Heimild: Matur og menning á suðursvæði Vestfjarða, bls. 14-15. Útgefandi: Vestfirska forlagið, 2009.
Þessi færsla var birt í Brauð á Íslandi, Uppskriftir vestfirskar hveitikökur, Vestfirskar hveitikökur og merkt sem . Bókamerkja beinan tengil.