Lyftiduft

Árið 1945 kom út bókin Bökun í heimahúsum eftir Helgu Sigurðardóttur. Þar segir hún: „Margir hyggja, að fyrirhafnarminna og ódýrara sé að kaupa allt brauð í brauðbúðum. Vera má, að áhyggjum og ýmsum örðugleikum sé létt af húsmæðrum á þann hátt. En ef því verður við komið, er hentugra, kostnaðarminna og skemmtilegra að baka heima, auk þess er heimagert brauð miklu betra, ef bakstur og tilbúningur lánast vel.“ (bls. 5).

Í leiðbeiningarkafla bókarinnar fjallar hún meðal annars um lyftiduft. Hún segir það aðallega notað í kringlur, mótkökur og hrærðar tertur. Það er þó oft kekkjótt og þarf því að sálda því ásamt hveitinu því sé það í kekkjum koma svartir dílar í brauðið. Best þykir Helgu að nota lyftiduft sem sé heimagert.

Hér fylgir uppskrift að lyftidufti eftir Helgu:

Efni

200 gr. vínsteinsduft (Kremor tartan)

100 gr. natron

15 gr. hjartarsalt

15 gr. hrísmjöl

Aðferð

Allt er þetta sáldrað 5-6 sinnum. Geymt í glasi með glertappa (ekki í blikkíláti). Ger þetta er ódýrara og betra en það, sem keypt er í búðum.

Þessi færsla var birt í Brauð á Íslandi og merkt sem . Bókamerkja beinan tengil.