Laufabrauðsgerð á Nesveginum – minning

Kristín (f. 1937) sendi Brauðbrunninum minningar sínar um laufabrauðsgerð.

Kristín ólst upp á Sólvallagötunni í Reykjavík. Hún kynntist ekki laufabrauðsgerð fyrr en hún gifti sig árið 1960. Eiginmaður hennar, Guðmundur (f. 1932), er fæddur á Möðruvöllum í Hörgárdal en ólst upp á Akureyri. Hann er alinn upp við laufabrauðsgerð fyrir jólin og þegar þau hjónin hófu búskap þá varð laufabrauðsgerð einn hluti af undirbúningi jólanna á þeirra heimili.

Fyrsta uppskriftin sem Kristín notaði kom úr Nýju matreiðslubókin sem gefin var út á Akureyri árið 1954 og Halldóra Eggertsdóttir og Sólveig Benediktsdóttir tóku saman. Uppskriftinn hefur þó tekið breytingum og árið 1973 fékk Kristín nýja uppskrift frá frænku sinni. Sú uppskrift reyndist mun betur en sú eldri þar sem flatningurinn var svo erfiður með þá gömlu þar sem deigið varð svo seigt. Þau hafa ekki breytt út frá þessari uppskrift síðan.

Laufabrauðsgerðin fer fram einhverja helgi í desember en laufabrauðið er borið á borð á jóldag og eru síðustu kökurnar borðaðar á Þrettándanum. Allir fjölskyldumeðlimir taka þátt og er bæðið notaðir hnífar og laufabrauðsjárn. Þá er alltaf notaður sami potturinn til steikingar. Fjölskyldan býr til ca. 120 kökur. Byrjað er eftir hádegi og er unnið frameftir degi við brauðgerð-ina. Þá er afskurðurinn  steiktur með og borðaður á meðan verið er að vinna. Guðmundur fletur út, Kristín steikir og dæturnar og barnabörn skera út. Mynstrin eru einkum tengd jólunum en líka skera flestir út upphafsstafina sína.

Laufabrauðsgerðin er mikilvægur hluti að undirbúningi jólanna á heimilnu og sagði m.a. ein af dætrum Kristínar við hana að hún mætti sleppa öllum öðrum bakstri fyrir jólin nema laufabrauðinu.

Uppskrift Kristínar – Laufabrauð (18-20 kökur)

750 gr. hveiti

2 1/2 tsk lyftiduft

2 1/2 tsk salt

3-4 msk sykur 

5 1/2 dl sjóðandi mjólk

50 gr. brætt smjörlíki

Aðferð:

Sykurinn er settur út í sjóðandi mjólkina og brætt smjörlíki. Vökvinn hrærður út í hveitið og svo hnoðað.

Flatt út með kökukefli. Kökudiskur notaður til viðmiðunar varðandi stærð.

Brauðbrunnur þakkar Kristínu fyrir þessa frásögn af laufabrauðsgerð í Reykjavík.

Þessi færsla var birt í Laufabrauð, Laufabrauðsuppskriftir og merkt sem , . Bókamerkja beinan tengil.