Flatbrauðið hennar ömmu – minning

Hún Ása sendi Brauðbrunninum þessa skemmtilegu frásögn af ömmu sína og um ómótstæðilegu flatkökur hennar. Brauðbrunnurinn þakkar Ásu fyrir að deila þessu minningarbroti með okkur og er sammála því að  ömmur eru bestar í heimi.

Ég átti ömmu, sem hét Hjördís Stefánsdóttir og var fædd 1918 í Haganesi við Mývatn. Hún bakað alltaf „alvöru“ flatbrauð sem við barnabörnin fengum að kjammsa á með nýreyktum silungi frá bróður hennar Ívari bónda í Haganesi, eða vænum sneiðum af hangikjöti. Þvílíkur herramannsmatur!

Flatbrauðið hennar ömmu var betra en allt annað flatbrauð sem ég hef smakkað fyrr og síðar. Uppskriftin er ákaflega einföld, en um leið flókin og ekki létt meðfarin, því í henni er einungis rúgmjöl og vatn. Amma var mjög nákvæm  og þegar kom að uppskriftum átt hún það til að prófa sig áfram með nákvæmi vísindamannsinn, vigta egg og prófa hvort 50 eða 55 grömm af kartöflumjöli í fiskibollunum var betra!

En flatbrauðið gerði hún þannig að hún bætti vatni út í rúgmjölið í því magni að það rétt byrjaði að tolla saman og mynda samanhangandi deig, því það var svo mismunandi hversu mikinn vökva mjölið drakk í sig. Hún hefur sjálfsagt haft einhver viðmið, en því miður náði ég aldrei að læra þau af henni. En þegar hún var búin að fá hnoða upp í deigið, geymdi hún það í kæliskáp yfir nótt, svo það fengi „að taka sig“.

Næsta dag skipti hún deiginu upp í að mig mynnir 10 hluta (þá úr u.þ.b. 1kg af rúgmjöli) og hnoðaði kúlu úr hverjum hluta, sem hún síðan rúllaði út í flatar kökur, sem hún stenkti aðeins með vatni, pikkaði í með hnífsoddi og geymdi undir rökum klút þangað til kom að því að steikja þær á heitri hellu. Hún átti gamaldags rafmagnshellu sem var þeim kostum gædd að á henni var engin gróp í miðjunni eins og á flestum hellum, svo hún steikti brauðið jafnt.

Þegar baksturinn hófst fór amma út á svalir með helluna, hafði hana á trékassa og sat sjálf á kolli sem hún hafði stytt fæturna á svo að hann passaði við, og steikti brauðið beint á hellunni, snéri kökunum með þartilgerðum hníf með þunnu, löngu blaði sem hún gat smeygt undir kökurnar þegar þær fóru að festast við. Og svo snéri hún og skakaði kökunum til þangað til þær voru passlega bakaðar, aðeins dökkar hér og þar, en ákaflega safaríkar og góðar.

Og auðvitað getur enginn gert eins gott flatbrauð og amma, en ein frænka mín hefur komist mjög nálægt. Það sem er svo erfitt við þettað deig er að það molnar auðveldlega, þornar fljótt og er ákafleg þungt að breiða út. En gott er það!

Þessi færsla var birt í Brauð á Íslandi, Brauðuppskriftir, Heimabakað brauð og merkt sem , , . Bókamerkja beinan tengil.