Minningar Einars um laufabrauð

Laufabrauðsgerð er stór hluti að jólaundirbúningi margra fjölskyldna í dag. Eftirfarandi frásögn barst Brauðbrunninum í síðustu viku frá Einari (f. 1941) um fyrstu minningar hans um laufabrauð:

„Laufbrauð þekktist ekki nema á austanverðu Norðurlandi. Ég er fæddur (1941- og uppalinn á Fellsströnd í Dalasýslu. Fyrir jólin 1959 kom ég í hús á Akureyri þar sem verið var að baka laufabrauð og bað ég um að fá að smakka það, því að ég hafði aldrei gert. Ég vandist þykkum kökum steiktum floti, sem oft voru hafðar til hátíðabrigða með hangikjöti á jólum og einnig sem venjulegt brauð þá minna var haft við. Þegar við kona mín giftum okkur fór ég fram á að kona mín bakaði slíkar kökur, sem hafa fallið fjölskyldunni vel í geð. Tengdafaðir minn (1913-1984) þekkti slíkar kökur úr Fljótum í Skagafirði og voru þær þar kallaðar partar. Fleiri nöfn eru þekkt, þingeyinga hef ég heyrt kalla þetta soðið brauð.

Mig langar til að minnast á soðkökur, eins konar rúgkökur, sem voru soðnar með sviðum oftast en stundum með saltketi. Þetta var ekki þurrbakstur. Kökurnar voru þykkar, sennilega þrír fjórir sentimetrar. Mér hefur dottið í hug að þetta hafi tíðkast áður en kartöflur urðu algengar. Ég man 1955 þegar menn sáu slíkar kökur heima hjá mér sögðust þeir ekki hafa séð þær síðan þeir voru litlir fyrir u. þ. b. öld núna. Þetta virðist hafa orðið óalgengt upp úr því, þótt vitanlega geti ég ekki sagt neitt um útbreiðsluna.“

Brauðbrunnurinn þakkar Einar kærlega fyrir þessar upplýsingar.

Þessi færsla var birt í Brauð á Íslandi, Laufabrauð, Laufabrauðsuppskriftir og merkt sem , . Bókamerkja beinan tengil.