Soðbrauð á Íslandi

Brauðbrunninum barst fyrirspurn um hvort soðið brauð væri sérstakt fyrir íslenska brauðmenningu.

Ágúst Georgsson, fagstjóri þjóðhátta á Þjóðminjasafni Íslands, varð fyrir svörum og fylgir svar hans hér:

Soðið brauð, eða soðbrauð, er vel þekkt hér á landi. Upplýsingar um það er m.a. að finna í þjóðháttasafni Þjóðminjasafns Íslands (sjá mynd hér að neðan).

Sendi þér frásögn um soðkökur sem skráð var eftir heimildarmanni árið 2010 sem sýnir að um lifandi hefð er að ræða.

H. vandist því að borða soðkökur með saltkjöti og býr þær til enn í dag, síðast á sprengidaginn 16. febrúar 2010. Börn hennar og barnabörn hafa einnig vanist soðkökum, t.d. ein dóttir hennar sem gerir þær til sjálf. Barnabörnunum þykja soðkökurnar góðar og hámuðu þær í sig sl. sprengidag. Það eru ekki margir utan fjölskyldu H. sem þekkja soðkökur, t.d. ekki fyrrverandi vinnufélagar hennar.

H. hefur útbúið soðkökur allar sína búskapartíð og hefur þær alltaf með saltkjöti. Hún notar mest hveiti og setur svo slurk af rúgmjöli saman við. Þetta eru um 2-3 bollar af hveiti og um hálfur bolli af rúgmjöli. Hún tekur sjóðheitt soðið af kjötinu og hrærir saman við mjölið, hnoðar síðan og býr til eins konar rúllu sem skorin er í bita. Deigið má hvorki vera of þétt né of þurrt. Bitarnir eru hnoðaðir í bollur og pressaðir eða flattir út í litlar kökur með lófunum. Kökurnar eru um 1 sm á þykkt og 5 sm í þvermál og soðnar í pottinum með saltkjötinu í um 20 mínútur. Þær eru borðaðar með smjöri sem bráðnar ofan á heitum kökunum. Ekki er notað ger eða lyftiduft.

Soðið brauð er einnig vel þekkt í öðrum löndum (soðið í vatni). Kleinur eru t.d. soðnar, þótt þær falli að vísu undir sætabrauð eða bakkelsi.

Skráning þjóðhátta í Sarpi

Þessi færsla var birt í Brauð á Íslandi og merkt sem . Bókamerkja beinan tengil.